Vottun hf. býður upp á almennar kynningar fyrir stjórnendur og aðra starfsmenn fyrirtækja um stjórnunarkerfi og vottun þeirra. Á slíkum kynningum er m.a. farið yfir þær kröfur sem einstakir stjórnunarstaðlar gera til stjórnunarkerfa, hvernig beri að túlka þessar kröfur og hvað þurfi almennt að liggja fyrir til að slík kerfi fáist vottuð.
Vottun hf. býður einnig upp á kynningar sem eru sérsniðnar að þörfum einstakra fyrirtækja og fjalla um tiltekið afmarkað efni að ósk hvers og eins. Slíkar kynningar eru þó ætíð almenns eðlis, enda fer ekki saman að veita beina ráðgjöf um það hvernig fyrirtæki skuli byggja upp stjórnunarkerfi sitt eða hvernig best er að útfæra reglur slíks kerfis og votta síðan samræmi kerfisins við staðla.
Kynningar Vottunar hf. henta vel til þess að auka skilning á ýmsum grundvallarhugtökum staðlanna og hvernig ber að túlka þá við uppbyggingu stjórnunarkerfa.