Vottun jafnlaunakerfa

Fimmtudagur, 24. september 2015 13:06 Vefstjóri
Prentvæn útgáfa

Vottun hf. býður nú fyrirtækjum og stofnunum nýja þjónustu sem er jafnlaunavottun. Um er að ræða vottun á samræmi jafnlaunakerfa við kröfur staðalsins ÍST85. Staðallinn var samþykktur sem nýr íslenskur staðall árið 2012 og reglugerð gefin út árið 2014 sem kveður á um kröfur hins opinbera til þeirra aðila sem votta slík kerfi. Reglugerðin byggir annars vegar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna og hins vegar á lögum um faggildingu. Námskeið til réttinda fyrir úttektarmenn var haldið í byrjun sumars og hafa úttektarmenn Vottunar hf. útskrifast með viðurkenningu velferðarráðuneytisins til að taka út og staðfesta vottun jafnlaunakerfa.

Vottun hf. er eina íslenska vottunarstofan sem vottar stjórnunarkerfi og er með faggildingu íslenskra stjórnvalda. Faggilding Vottunar hf. nær nú til vottunar gæðastjórnunarkerfa og umhverfisstjórnunarkerfa og mun stofan sækja um að fá samsvarandi faggildingu fyrir vottun jafnlaunakerfa. Að fenginni slíkri faggildingu verða allar útgefnar vottanir stofunnar á þessu sviði faggiltar vottanir.

Vottun hf. býður fyrirtækjum og stofnunum að halda almennar kynningar fyrir stjórnendur og starfsmenn á jafnlaunakerfum og vottun þeirra, hvernig beri að túlka kröfur staðalsins og hvað þurfi almennt að liggja fyrir til að jafnlaunakerfi fáist vottað. Einnig býður Vottun hf. námskeið í innri úttektum, en um þær er fjallað í kafla 4.5.5 í staðlinum.

Frekari upplýsingar um jafnlaunakerfi og jafnlaunavottun má fá í bæklingnum Jafnlaunakerfi - samkvæmt íslenska staðlinum ÍST 85 og á skrifstofu Vottunar hf. (s: 570-7200). Sækja má um vottun með því að fylla út umsóknareyðublað hér til vinstri á síðunni og senda Vottun hf.