Vottun hf.

  • Stækka leturstærð
  • Sjálfgefin leturstærð
  • Minnka leturstærð
Velkomin á heimasíðu Vottunar hf.

ARKÍS arkitektar ehf. fá vottun

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Vottun hf. hefur vottað samræmi gæðastjórnunarkerfis ARKÍS arkitekta ehf. við kröfur ÍST ISO 9001 staðalsins. Nær vottunin til hönnunar- og ráðgjafarþjónustu á sviðum arkitektúrs og skipulags. ARKÍS var stofnað 1997 og eru starfsmenn nú á þriðja tug talsins. Verkefnin spanna öll svið arkitektúrs, skipulags, hönnunar og ráðgjafar og viðskiptavinirnir bæði innlendir og erlendir. Stofan hefur þá sérstöðu að geta boðið upp á heildstæða ráðgjöf fyrir vistvæna byggð og byggingar á öllum stigum hönnunar, þ.e. undirbúnings, skipulags, hönnunar og framkvæmdaeftirlits. Nánari upplýsingar um ARKÍS er að finna á heimasíðunni www.ark.is.

 

Breytingar hjá Verkís hf.

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Á síðasta ári sameinuðust fyrirtækin Verkís hf. og Almenna verkfræðistofan hf. undir nafninu Verkís hf. Bæði fyrirtækin voru með vottuð gæðastjórnunarkerfi og umhverfisstjórnunarkerfi hjá Vottun hf. og nú hefur hið sameinaða fyrirtæki bætt við sig vottun á stjórnunarkerfi heilsu og öryggis á vinnustað samkvæmt OHSAS 18001 staðli.

Verkís hefur einnig flutt höfuðstöðvar sínar úr Ármúla að Ofanleiti 2 í Reykjavík. Nýja húsnæðið er um 8000 fermetrar að stærð á fimm hæðum og hýsti áður Háskólann í Reykjavík. Nú starfa um 340 manns hjá Verkís og hefur stór hluti þeirra flutt í nýja húsnæðið. Auk höfuðstöðvanna í Reykjavík er Verkís með starfsstöðvar víðsvegar um landið og einnig í Noregi, Grænlandi og Póllandi.

 

Umhverfisvottun Sorpu bs.

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Í dag, 28. febrúar 2014, fagnar Sorpa bs. vottun umhverfisstjórnunarkerfis síns sem Vottun hf. hefur veitt fyrirtækinu. Um er að ræða vottun á móttöku, meðhöndlun og vinnslu úrgangs í móttöku- og flokkunarstöð í Gufunesi, ásamt rekstri urðunarstaðar og framleiðslu metans í Álfsnesi.

Fyrir er fyrirtækið með vottun á gæðastjórnunarkerfi sínu skv. ISO 9001 staðli, sem það hefur haft frá árinu 2011. Nánari upplýsingar um starfsemi Sorpu er að finna á heimasíðunni www.sorpa.is.

 

 

Vottanir á kerfum Landsnets hf.

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Vottun hf. vottaði nýlega tvö stjórnunarkerfi hjá Landsneti hf. Um er að ræða umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001 staðli og stjórnunarkerfi heilsu og öryggis á vinnustað samkvæmt OHSAS 18001 staðli. Þessar vottanir bætast við vottun gæðastjórnunarkerfis samkvæmt ISO 9001 staðli sem fyrirtækið hefur verið með síðan 2007.

Landsnet hf. var stofnað árið 2005 á grundvelli raforkulaga og er hlutverk þess að annast flutning raforku og stjórnun íslenska raforkuflutningskerfisins. Eigendur Landsnets hf. eru Landsvirkjun, RARIK, Orkuveita Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða. Nánari upplýsingar um fyrirtækið er að finna á heimasíðu þess, www.landsnet.is.

 

Siglingasvið Samgöngustofu

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Um mitt síðasta ár komu til framkvæmda ný lög um stjórnsýslustofnun samgöngumála - Samgöngustofu. Þá færðust öll verkefni sem áður heyrðu undir Flugmálastjórn Íslands og Umferðarstofu til hinnar nýju stofnunar, ásamt stjórnsýslu- og eftirlitsverkefnum Siglingastofnunar Íslands og leyfisveitingum og umferðareftirliti Vegagerðarinnar. Framkvæmda- og rekstrarverkefni Siglingastofnunar fluttust á sama tíma til Vegagerðarinnar.

Siglingastofnun Íslands fékk vottun á gæðastjórnunarkerfi sitt árið 2005 og hefur unnið að frekari útvíkkun þess síðan. Með framangreindum breytingum á stofnunum ríkisins þá flyst hið vottaða gæðastjórnunarkerfi Siglingastofnunar yfir á Siglingasvið Samgöngustofu. Hefur virkni kerfisins eftir þessar breytingar verið staðfest af Vottun hf.

 

Stjórnunarkerfi Strætó bs. vottuð

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Vottun hf. staðfesti nýlega að stjórnunarkerfi Rekstrarsviðs Strætó bs. uppfylltu kröfur alþjóðlegra staðla. Annars vegar er um að ræða umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við kröfur ISO 14001 staðalsins og hins vegar stjórnunarkerfi heilsu og öryggis á vinnustað í samræmi við kröfur OHSAS 18001 staðalsins. Strætó er byggðasamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hefur það hlutverk að veita almenna þjónustu á sviði almenningssamgangna. Undir það hlutverk fellur rekstur almenningsvagna (strætó), ferðaþjónustu fatlaðra og ferðaþjónustu eldri borgara. Nánari upplýsingar um fyrirtækið er að finna á www.s.is.

 

Breytingar á umfangi vottaðra stjórnunarkerfa

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Undanfarið hafa orðið breytingar á umfangi vottunar hjá nokkrum viðskiptavinum Vottunar hf.

Breytingar voru gerðar á skipan sviða hjá Reykjavíkurborg á síðasta ári sem höfðu áhrif á vottun umhverfisstjórnunarkerfis á fyrrum Umhverfis- og samgöngusviði. Eftir breytinguna nær vottunin til allrar skrifstofustarfsemi Umhverfis- og skipulagssviðs, eins og sviðið heitir nú, ásamt starfsemi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Grasagarðs Reykjavíkur, ræktunarstöðvar, útmerkur, Vinnuskóla Reykjavíkur, sorphirðu og meindýravarna.

Hjá Distica hf. hefur sú breyting orðið að vottað gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins nær ekki einungis til innflutnings, umpökkunar, birgðahalds og heildsöludreifingar lyfja heldur hafa heilsuvörur, neytendavörur og vörur fyrir heilbrigðisþjónustu og rannsóknastofur bæst við þá starfsemi sem vottuð er. Rekstur vöruhúss fyrirtækisins í Suðurhrauni í Garðabæ fellur þar með undir vottað gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins.

Fyrirtækið N1 hefur víkkað út vottaða starfsemi sína. Áður náði hún til þjónustustöðvar og reksturs þjónustuverkstæðis að Bíldshöfða 2 í Reykjavík en nú hafa þjónustustöðvar við Hringbraut, Kringlumýrarbraut og Borgartún í Reykjavík og við Háholt í Mosfellsbæ verið felldar undir vottað umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækisins.

Loks hefur ISAVIA ohf. bætt verkþáttum flugumferðarþjónustu við umfang þeirrar starfsemi sem er innan vottaðs gæðastjórnunarkerfis. Þar með er flugumferðarstjórn, flugupplýsingaþjónusta og viðbúnaðarþjónusta orðinn hluti af vottaðri starfsemi félagsins.

 

 

Orkubú Vestfjarða ohf. fær vottun

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Orkubú Vestfjarða ohf. hefur fengið vottun á gæðstjórnunarkerfi sitt hjá Vottun hf. og nær vottunin til allrar starfseminnar. Félagið var stofnað á miðju sumri 2001 á grundvelli laga sem þá voru samþykkt á Alþingi. Það byggir á grunni eldra sameignarfélags sem var í eigu ríkis og sveitarfélaga á svæðinu. Hlutverk Orkubúsins nær til alls orkuiðnaðar á Vestfjörðum og er tilgangur þess að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, eiga og reka vatnsorkuver, jarðvarmavirki, dísilraforkustöðvar og fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til dreifingar á raforku og heitu vatni til kaupenda. Auk þess annast félagið virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir eftir því sem ákveðið er hverju sinni. Nánari upplýsingar um starfsemina má finna á heimasíðu félagsins, www.ov.is.

 

Vottun Actavis og Actavis Group PTC

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Vottun hf. hefur tekið yfir vottun á samræmi stjórnunarkerfa fyrirtækjanna Actavis ehf. og Actavis Group PTC ehf. frá erlenda fyrirtækinu SGS. Um er að ræða vottun á samræmi umhverfisstjórnunarkerfa þessara fyrirtækja við ISO 14001 staðalinn og á samræmi stjórnunarkerfa heilsu og öryggis á vinnustað við staðalinn OHSAS 18001. Kerfin ná til þróunar og framleiðslu lyfja vegna skráningar og til framleiðslu á lyfjum á föstu formi til inntöku.

Starfsemi Actavis-fyrirtækjanna er í Hafnarfirði en þau eru í eigu móðurfélagsins Actavis Inc. sem er með starfsemi í 60 löndum og hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Hjá Actavis á Íslandi starfa yfir 700 manns við þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Það er stefna fyrirtækjanna að starfa á ábyrgðarfullan hátt í samfélaginu og að í allri starfseminni séu umhverfissjónarmið, ásamt öryggi og heilsu starfsmanna, höfð að leiðarljósi. Nánari upplýsingar um starfsemi Actavis hér á landi eru á www.actavis.is.

 

Gæðastjórnunarkerfi orkusviðs Frumherja vottað

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Í desember síðastliðnum veitti Vottun hf. orkusviði Frumherja hf. vottun á gæðstjórnunarkerfi sitt. Frumherji er stærsta skoðunar- og prófunarstofa landsins auk þess sem fyrirtækið býður aðra þjónustu, svo sem sölumælingar og sölu raforku- og vatnsmæla.

Orkusvið Frumherja á og rekur vel á annað hundrað þúsund raforku- og vatnsmæla og felst þjónusta sviðsins í að útvega sölumælingar m.a. fyrir stærstu dreifiveitu landsins og nokkrar minni veitur.Vottaða gæðastjórnunarkerfið nær til starfsemi allt frá innkaupum til förgunar mælanna, þ.e. innkaup, uppsetningu, álestur, útskipti, viðgerðir, niðurtekt og förgun. Nánari upplýsingar um orkusvið Frumherja hf. er að finna á heimasíðu félagsins.

 



Vottuð starfsemi

 

 

Upplýsingar um handhafa
gildra vottorða og umfang
vottana hjá Vottun hf.
fást á skrifstofu félagsins.


Vottun hf. —    NMÍ, Keldnaholti    —    112 Reykjavík    —    sími: 570-7200    —    fax: 522-9111    —    tp: vottun@vottunhf.is    —    kt: 590691-1439