Alþjóðlega staðlastofnunin (ISO), faggildingaraðilar í hverju landi og faggiltar vottunarstofur hafa í heiðri ákveðnar grundvallarreglur til að tryggja hlutleysi í öllu þjónustuferlinu, allt frá útgáfu staðals og til veitingar þjónustu samkvæmt vottuðu stjórnunarkerfi. Þannig er hlutverk ISO einungis að þróa og gefa út staðla en hvorki að votta samræmi við þá né veita einstökum fyrirtækjum ráðgjöf. Á sama hátt hafa vottunarstofur einungis það hlutverk að votta samræmi við ákveðna staðla en gefa hvorki út staðla né veita fyrirtækjum ráðgjöf um það hvernig á að uppfylla þá.
Ef vottunarstofa veitir ráðgjöf um uppbyggingu stjórnunarkerfis og vottar jafnframt kerfið þá er ekki lengur hægt að tala um óháða og hlutlausa vottunarþjónustu. Þessir tveir þjónustuþættir, ráðgjöfin og vottunin, hafa auðveldlega áhrif hvor á annan. Að blanda saman vottun og ráðgjöf má líkja við það að dómari í máli væri jafnframt aðili að málinu.
Hlutleysiskrafan á hendur vottunarstofum gengur reyndar miklu lengra en lýst er hér að framan og þarf vottunarstofa t.d. sífellt að meta og gæta að hlutleysi sínu og starfsmanna sinna gagnvart viðskiptavinunum og skrá og bregðast við mögulegum hagsmunaárekstrum og ógnunum. Um þetta hefur Vottun hf. sett sér verklagsreglur sem eru hluti af gæðastjórnunarkerfi hennar.