Jafnlaunakerfi Tollstjóra vottað

Þriðjudagur, 07. mars 2017 11:28 Vefstjóri
Prentvæn útgáfa

Í nóvember á síðasta ári hlaut embætti Tollstjóra vottun á jafnlaunakerfi sitt hjá Vottun hf. Um er að ræða vottun á samræmi kerfisins við kröfur staðalsins ÍST 85. Staðallinn var samþykktur sem nýr íslenskur staðall árið 2012 og reglugerð gefin út árið 2014 sem kveður á um kröfur hins opinbera til þeirra aðila sem votta slík kerfi. Reglugerðin byggir annars vegar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og hins vegar á lögum um faggildingu.

Hjá Tollsjóra starfa á þriðja hundrað manns og er embættið með starfsstöðvar víða um land. Kjarnastarfsemin er á sviði tollstjórnar og innheimtumála en Tollstjóri hefur með höndum tollgæslu í landinu ásamt innheimtu opinberra gjalda fyrir ríki og sveitarfélög í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur. Embættið hefur starfrækt gæðastjórnunarkerfi í starfsemi sinni sem hefur verið vottað af DQS frá miðju ári 2015. Nánari upplýsingar um starfsemina er að finna á heimasíðu embættisins, www.tollur.is.